Siðareglur Distica

Siðareglur Veritas Capital og dótturfyrirtækja

Siðareglur og gildi ná til allra starfsmanna og stjórnarmanna hjá fyrirtækjum innan VC samstæðunnar.

1. GILDI SAMSTÆÐUNNAR ERU hreinskiptni, framsækni og áreiðanleiki

2. FYLGNI VIÐ LÖG OG REGLUR
Við fylgjum ávallt settum landslögum og viðurkenndum reglum sem lúta að faglegri starfsemi fyrirtækisins og daglegum störfum. Engar undantekningar líðast. Við forðumst jafnframt þær athafnir sem leiða til misnotkunar á samkeppnisstöðu eða misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.

3. SAMFÉLAGSÁBYRGÐ
Við berum virðingu fyrir ytri sem innri hagsmunaaðilum með gagnkvæman ávinning að leiðarljósi. Við gerum okkur ljóst að ábyrgð okkar nær einnig til samfélagsins og umhverfisins og gætum þess að starfsemi og ákvarðanir endurspegli ávallt þessa ábyrgð.

4. HEILINDI OG HEIÐARLEIKI
Við komum ávallt fram af heilindum og heiðarleika jafnt innan fyrirtækis sem utan. Við viðhöfum ekki athafnir eða háttalag sem kann að vera fyrirtækinu eða okkur sjálfum til vansa. Við upplýsum starfsfólk um það sem máli skiptir svo fremi sem það brjóti ekki trúnað. Ennfremur gætum við þess að koma mikilvægum upplýsingum er varða hagsmuni fyrirtækisins til viðeigandi aðila innan fyrirtækisins.

5. HAGSMUNAÁREKSTRAR
Ef minnsti vafi leikur á að um árekstur milli hagsmuna fyrirtækisins, persónulegra hagsmuna okkar, hluthafa eða fyrirtækja sem þessir aðilar tengjast, geti verið að ræða skal ávallt upplýsa yfirmenn, starfsmannastjóra eða stjórn þannig að hægt sé að taka afstöðu til þess hvernig brugðist skuli við.

6. TRÚNAÐUR
Við gætum ávallt fyllsta trúnaðar um upplýsingar sem við búum yfir og við verðum áskynja í starfi. Gildir þá einu hvort um er að ræða upplýsingar um fyrirtækið, starfsmenn, viðskiptavini, birgja, samstarfsaðila eða aðra hagsmunaaðila.

7. VIRÐING
Við komum ávallt fram af virðingu við starfsfólk og viðskiptavini fyrirtækisins. Mismunun, áreitni, einelti og baktal er aldrei liðið og tafarlaust tilkynnt til yfirmanna, starfsmannastjóra eða öryggisnefndar. Starfsmenn eru metnir að verðleikum og við leitumst við að viðhalda fjölbreytni og veita starfsfólki af báðum kynjum tækifæri til aukinnar ábyrgðar og framgangs í starfi. Við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir slys og verndum heilsu starfsmanna.

8. UPPLÝSINGAGJÖF UM MISBRESTI
Við látum vita ef siðferðisleg vafamál koma upp í aðgerðum eða ákvörðunum fyrirtækisins eða ef við teljum fyrirtækið, starfsmenn þess eða stjórnarmenn brjóta gegn siðareglum þessum. Við förum með slík mál til yfirmanna, starfsmannastjóra eða stjórnar og getum treyst því að slíkum tilkynningum, settum fram í góðri trú, verði ekki mætt með viðurlögum af nokkru tagi.