Dreifing

Distica sérhæfir sig í dreifingu á lyfjum, heilsuvörum, neytendavörum og vörum fyrir heilbrigðisþjónustu og rannsóknarstofur og hefur verið í fararbroddi á sínu sviði í rúmlega 60 ár.

Fyrirtækið er með um 70% hlutdeild í dreifingu lyfja á Íslandi auk þess sem það sinnir dreifingu á rannsóknartækjum, rekstrarvörum og fleiru til sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila, tannlækna og dýralækna. Distica sinnir einnig dreifingu á neytendavörum til verslana.

Meginmarkmið Distica

Keppikefli Distica er að stunda markvissa dreifingu og er áreiðanleiki þjónustunnar miðpunkturinn í allri starfseminni.

Rétt vara

Rétt magn

Rétt ástand

Á réttum tíma

Dreifingarþjónusta

Distica býður upp á heildarlausnir á sviði innflutnings, vörustjórnunar og dreifingar. Distica sérhæfir sig í dreifingu á lyfjum, heilsuvörum og vörum fyrir heilbrigðisþjónustu og rannsóknarstofur, en dreifir enn fremur ýmsum vörum til stórmarkaða, tannlækna, dýralækna, gæludýraverslana og fleiri aðila.

Við bjóðum viðskiptavinum okkar eftirfarandi þjónustu:

  • Innkaup
  • Vörustjórnun
  • Innflutning
  • Tollafgreiðslu
  • Vörumóttöku
  • Birgðahald
  • Umpökkun
  • Pantanamóttöku
  • Dreifingu
  • Gerð reikninga
  • Innheimtu

Distica er með um 16.000 vörunúmer frá hátt í 300 birgjum.

Verklagi við tiltekt, pökkun, merkingu og frágang lyfja til flutnings til viðskiptavina er lýst í sérstakri verklagsreglu hjá félaginu. Umsjónarmaður vöruafgreiðslu ber ábyrgð á að tiltekt, pökkun, merking og flutningur lyfja til viðskiptavina sé samkvæmt þessari vinnulýsingu.

Samantekt pantana

Í vöruafgreiðslu eru vörur teknar saman skv. pöntunum frá viðskiptavinum, þeim pakkað í viðeigandi umbúðir og gerðar tilbúnar til afgreiðslu til viðskiptavina. Samantekt er stjórnað af vöruhúsakerfinu, þ.e. í hvaða röð, af hvaða svæði, tegundir vara og hvernig vörum skal pakkað, allt eftir kröfum um geymsluskilyrði.

Pökkun

Að lokinni samantekt er vörunum pakkað skv. kröfum um geymsluskilyrði. Við pökkun lyfja má ekki nota aðrar umbúðir en tilgreindar eru í rekstrarvörumasterum fyrir flutning lyfja frá Distica. Lagerstarfsmenn pakka vörunum í flutningsumbúðir og búa um þær með þeim hætti að þær skemmist ekki við flutning né rýrni að gæðum. Flutningsumbúðir eru innsiglaðar eða límdar aftur með límbandi þannig að viðskiptamaður sjái ef umbúðir hafa verið opnaðar í flutningi. Pökkunarseðill fylgir sendingu til viðskiptamanns.

Flutningur til viðskiptavina

Distica sér um dreifingu til viðskiptavina sinna á höfuðborgarsvæðinu en er í samstarfi við Íslandspóst um dreifingu til viðskiptavina á landsbyggðinni. Vörur eru fluttar daglega í gegnum dreifikerfi Distica til viðskiptavina á 700 – 800 afhendingarstaði um land allt.

Eingöngu má senda lyf með samþykktum flutningsaðilum nema viðskiptamaður velji annað og greiði flutningskostnað og beri þar með ábyrgð á flutningi. Viðtakendur sendinga á höfuðborgarsvæðinu kvitta fyrir móttöku sendinga á hleðslulista.

Ferilvöktun

Árið 2010 þróaði Distica lausn fyrir vöktun hitastigs í flutningi með fyrirtæki sem heitir Controlant. Um er að ræða nema (hitasírita) sem komið er fyrir í flutningsíláti sem sendir hitastigsupplýsingar og viðvaranir í rauntíma í gegnum vefviðmót. Þannig getur viðskiptaþjónusta Distica vaktað hitastig á vörum í flutningi.