Vöruhúsin

Distica rekur þrjú vöruhús, í Hörgatúni, Suðurhrauni og Miðhrauni, þar sem hýst eru alls um 16 þúsund vörunúmer á hverjum tíma.

Starfsmenn vöruhúsa Distica eru 50 talsins og skiptast niður á þrjú vinnusvæði innan vöruhúsanna, vörumóttöku, umppökkun og vöruafgreiðslu. Vöruhúsið í Hörgatúni er sérhæft vöruhús fyrir lyf og uppfyllir kröfur Evrópusambandsins samkvæmt GDP-reglugerðinni (Good Distribution Practices). Vöruhúsið Suðurhrauni er sérhæft vöruhús fyrir lækningatæki og vöruhúsið Miðhrauni er sérhæft vöruhús fyrir vörur. Vöruhúsin í Hörgatúni og Suðuhrauni eru vottuðsamkvæmt ISO 9001 gæðastaðlinum. Vöruhúsin eru hornsteinn í dreifingu allra vara fyrir íslenska heilbrigðismarkaðinn.

Vöruhús Distica starfa samkvæmt umhverfisstefnu móðurfélagsins og stöðugt er unnið að því að minnka umhverfisspor starfseminnar með því að vera sífellt að endurskoða vinnuferli til dæmis m.t.t. umbúða, endurvinnslu og flokkunar hráefnis sem notað er við starfsemina.

Distica notar Manhattan Scale vöruhúsakerfið við alla ferla og vinnu í vöruhúsunum og fjárhagskerfið Microsoft Dynamics NAV.

Vörumóttaka

Vörumóttökunni í Hörgatúni berast um 160 sendingar í hverjum mánuði sem flestar koma erlendis frá með skipum en einnig er flutt með flugi. Vörumóttökuferlið fylgir ströngum verklagsreglum allt frá því að varan kemur fyrst inn á gólf í vöruhúsinu og þangað til hún er tilbúin til sölu. Sendingar eru skoðaðar með tilliti til skemmda, hitastigs í flutningi og annarra þátta sem þarf að skoða strax í upphafi.

Í móttökuskoðun eru lyf skoðuð með tilliti til þess að þau uppfylli markaðsleyfi á Íslandi og framleiðslustaðfesting og vottorð um söluhæfni liggi fyrir á þeirri lotu sem um ræðir hverju sinni. Í hverjum mánuði taka starfsmenn vörumóttöku á móti 1.800 vörulínum sem fara í gegnum ofangreint ferli. Vörur sem, af einhverjum ástæðum, uppfylla ekki ströngustu kröfur, eru teknar til hliðar og fara í skoðun. Strangar kröfur eru gerðar til endursendinga lyfja og einungis hluta þeirra er hægt að taka við til endursölu og þá að undangenginni annarri móttökuskoðun.

Átta starfsmenn starfa við vörumóttöku í vöruhúsi Distica í Hörgatúni.

Gæðaeftirlit

Distica starfar í samræmi við leyfi sem Lyfjastofnun gefur út. Annars vegar er um að ræða heildsöluleyfi (GDP) og hins vegar framleiðsluleyfi (GMP).

Gæðastjórnunarkerfi Distica tekur mið af kröfum GDP og GMP og er einnig vottað samkvæmt ISO 9001 staðlinum. Umfang vottaðrar starfsemi Distica er innflutningur, umpökkun, birgðahald og heildsöludreifing á lyfjum, heilsuvörum, neytendavörum og vörum fyrir heilbrigðisþjónustu og rannsóknarstofur.

Markmið Distica með rekstri gæðastjórnunarkerfisins er að fyrirtækið hafi getu til að uppfylla

 • ákvæði laga og reglugerða sem um starfsemina gilda
 • ákvæði gæðatryggingasamninga
 • kröfur GMP og GDP

og geti þannig afgreitt rétta vöru, í réttu magni og í réttu ástandi til viðskiptavina sinna.

Bæði Lyfjastofnun og markaðsleyfishafar lyfja sem Distica þjónustar gera reglulega gæðaúttektir á starfsemi fyrirtækisins. Þessar úttektir eru mikilvægar til að fá mat á frammistöðu fyrirtækisins og ábendingar sem nýtast til að gera umbætur á verkferlum sem lúta að innflutningi, birgðahaldi og heildsöludreifingu og ná þannig að bæta stöðugt frammistöðu félagsins.

Umpökkun

Í umpökkun eru íslenskar leiðbeiningar (fylgiseðlar) settar í eða á lyfjapakkningar sem innihalda einungis erlenda fylgiseðla þegar þær koma til landsins. Umpökkunarferlið er skilgreint sem framleiðsla og þarf því að uppfylla strangar kröfur samkvæmt GMP (Good Manufacturing Practices) reglugerð Evrópusambandsins um framleiðslu og meðhöndlun lyfja. Einungis hluti þeirra lyfjapakkninga sem berst í vöruhúsið þarf að fara í gegnum umpökkunarferlið, en í hverjum mánuði er um 80 þúsund einingum umpakkað af starfsmönnum Distica. Í umpökkun starfa 14 manns.

Vöruhýsing

Vöruhúsið Hörgatúni

Í Hörgatúni er ISO vottað lyfjavöruhús Distica, þar eru hýst manna- og dýralyf við stofuhita 15-25°C, í kæli við 2-8°C og frysti við -20 °C. Vöruhúsið fylgir ströngum ferlum og stöðlum sem gilda um meðhöndlun og dreifingu lyfja hvað varðar umhverfi, húsnæði, öryggi, tækjabúnað, verklag og vinnubrögð. Vöruhúsinu er skipt í þrjú vinnusvæði: vörumóttöku, umpökkun og vöruafgreiðslu auk þess sem veitt er þjónusta í tengslum við rannsóknarlyf.

 • Lyfjum er dreift til heilbrigðisstofnana, apóteka, dýralækna og tannlækna.
 • Vöruhúsið er um 4.600 m2 að stærð, með 700 brettaplássum og 4.700 hilluplássum.
 • Starfsmenn vöruhússins í Hörgatúni eru 40.
 • Í vöruhúsinu Hörgatúni eru mótteknar um 250 sendingar á mánuði, teknar saman um 90.000 pantanalínur og sendar til viðskiptavina okkar.

Vöruhúsið Suðurhrauni

Í Suðurhrauni er ISO vottað lækningatækja Distica, þar eru hýst lækningatæki og hjúkrunarvörur við stofuhita 15-25°C, í kæli við 2-8°C og í frysti við -20 °C. Vöruhúsið fylgir ströngum kröfum sem gerðar eru til lækningatækja hvað varðar umhverfi, húsnæði, öryggi, tækjabúnað, verklag og vinnubrögð. Vöruhúsinu er skipt í tvö vinnusvæði: vörumóttöku og vöruafgreiðslu.

 • Lækningatækjum og hjúkrunarvörum er m.a dreift til heilbrigðisstofnana, apóteka og rannsóknastofa.
 • Vöruhúsið er um 2.000 m2 að stærð, með 1.100 brettaplássum og 8.000 hilluplássum.
 • Starfsmenn vöruhússins í Suðurhrauni eru 8.
 • Í vöruhúsinu Suðurhrauni eru mótteknar um 450 sendingar á mánuði, teknar saman um 7.000 pantanalínur og sendar til viðskiptavina okkar.

Vöruhúsið Miðhrauni

Í Miðhrauni er heilsuvöru- og dýrafóðursvöruhús, þar eru vörur hýstar við stofuhita 15-25°C. Vöruhúsið er ISO vottað og fylgir ströngum kröfum hvað varðar umhverfi, húsnæði, öryggi, tækjabúnað, verklag og vinnubrögð. Vöruhúsinu er skipt í þrjú vinnusvæði: vörumóttöku, umpökkun og vöruafgreiðslu.

 • Vörum og dýrafóðri er m.a dreift til apóteka, dýralækna og á matvörumarkað.
 • Vöruhúsið er um 2.100 m2 að stærð, með 1.600 brettaplássum og 3.000 hilluplássum.
 • Starfsmenn vöruhússins í Miðhrauni eru 10.
 • Í vöruhúsinu Miðhrauni eru mótteknar um 80 sendingar á mánuði, teknar saman um 21.000 pantanalínur og sendar til viðskiptavina okkar.

Stofuhitavara

Þegar fjallað er um hýsingu á stofuhitavörum þá er verið að tala um vörur sem eru geymdar við 15–25 °C í vöruhúsum Distica. Langflestar vörur og vörunúmer sem Distica hýsir falla undir þetta geymsluskilyrði.

Kælivara

Kælivara er geymd við 2–8 °C í vöruhúsum Distica.
Við flutning til viðskiptavina er kælilyfjum pakkað í sérhannaðar flutningsumbúðir sem tryggja að hitastig haldist innan 2–8 °C í allt að 24 klukkustundir á flutningstímanum.
Mikil áhersla er lögð á rekstraröryggi kælikerfis fyrir kælirými lyfjalagers Distica. Mikilvægustu hlutar kerfanna eru því tvöfaldir og einnig eru kerfin tengd varaafli sem er dísilknúin rafstöð. Einnig er til staðar sjálfstæður varakælibúnaður sem keyrir óháð aðalkælibúnaði.

Hita- og rakastigsvöktun

Hitastigi í vöruhúsum Distica er stýrt og hitastigið er sívaktað. Hitaskráningarbúnaður er tengdur öryggisfyrirtæki Distica sem vaktar boð um hitastigsfrávik allan sólarhringinn og kallar út starfsmenn Distica ef hitastig fer út fyrir skilgreind mörk.

Rakastig í vöruhúsum Distica er vaktað. Á Íslandi er rakastig að jafnaði frekar lágt og ekki hefur þurft að stýra rakastigi í vöruhúsunum. Hita- og rakanemar eru kvarðaðir reglulega.